Skarð í vör og góm

aronoVið höfum sinnt mjög mörgum börnum með skarð í vör og góm.  Hér að neðan eru smá almennar upplýsingar varðandi tannréttingar barnanna og neðst á síðunni má sjá tengil heimasíðu félags barna með skarð í vör og góm, breið bros!

 

TANNRÉTTINGAR BARNA MEÐ SKARÐ Í VÖR OG GÓM

 

Foreldrum sem eignast börn með klofinn góm eða skarð í tanngarð eða vör verður brátt ljóst að þau þurfa að njóta umönnunar stórs hóps fagmanna öll uppvaxtarárin. Tannréttingsérfræðingar eru tannlæknar sem hafa sérmenntað sig í meðferð á tann-og bitskekkjum og gegna veigamiklu hlutverki innan þessa hóps.

 

Skarði í tanngarð eða góm fylgja að jafnaði tann- og bitskekkjur sem eru bein afleiðing þessa meðfædda galla. Dæmi um slíkar skekkjur eru undirbit sem stafar af því að framvöxtur efri kjálkans er ekki nægilegur og krossbit sem rekja má til þess að jaxlasvæði falla saman inn að skarðinu þannig að breidd efri tannbogans minnkar. Einnig verður oft truflun á vexti tannkíma næst skarðinu, þannig að þar myndast of margar eða of fáar tennur, gallaðar tennur, snúnar eða rangstæðar tennur.

 

Börn sem fæðast með klofinn góm eða skarð í tanngarð og vör hafa því mikla þörf fyrir tannréttingar. Meðferð og eftirlit hefst yfirleitt á unga aldri og lýkur ekki fyrr en tannskiptum og vexti er lokið. Algengt er að meðferðin líkist því sem lýst er í stuttu máli hér á eftir.

 

Tannréttingar á tannskiptaaldri

 

Yfirleitt er hafist handa við lagfæringu á tannskekkju um 7-8 ára aldur, en æskilegt er þó að koma með barnið fyrr til skoðunar hjá tannréttingasérfræðingi, t.d. 4-6 ára. Þó að barnatennurnar sýnist vera mikið skakkar á þessum aldri og til lítils gagns má alls ekki vanrækja hirðu þeirra. Þegar í stað á að hefja burstun tanna við komu þeirra og halda barnatönnunum eins heilum og mögulegt er með góðri tannhirðu og hófsemi í sykurneyslu. Reglulegt eftirlit hjá heimilistannlækni er nauðsynlegt frá 2-3 ára aldri.

 

Þegar barnið er 6-8 ára fara fyrstu fullorðinsframtennurnar að koma í ljós. Þær eru yfirleitt snúnar og í rangstöðu og nauðsynlegt að stýra þeim á réttan stað í tannboganum jafnóðum og þær koma niður. Þetta er ýmist gert með gómplötum eða föstum, álímdum tannréttingatækjum, teinum. Jafnframt er oft hafist handa við að víkka út hliðartannbogana og laga þannig krossbitið. Við þetta stækkar skarðið, en tilgangurinn er að setja tannbogana í eðlilega stöðu eða því sem næst. Þegar þessum áfanga er náð er yfirleitt tímabært að lýtalæknirinn græði bein í skarðið til þess að loka því og skapa jafnframt betri aðstæður fyrir tennur sem eiga eftir að koma niður. Að lokinni þessarri fyrstu lotu eiga framtennur að vera komnar í sæmilega stöðu og beinbrýr komnar á milli gómhelminganna. Oft eru virk tannréttingatæki fjarlægð á þessu stigi og beðið komu fleiri fullorðinstanna áður en hafist er handa á ný.

 

Tannréttingar að loknum tannskiptum

 

Hafi hlé verið gert á tannréttingunni eftir fyrsta áfangann hefst yfirleitt ný meðferðarlota við 12-14 ára aldur þegar allar fullorðinstennur eru komnar upp. Þessi tannrétting er gerð með föstum tækjum og markmiðið er að rétta tennur og bit til fullnustu. Þegar tannréttingunni er endanlega lokið þarf síðan oft að smíða krónur til að bæta gallaðar tennur eða smíða brýr þar sem tannvöntun er til staðar.

 

Enn má nefna að ef mikið misræmi er í framvexti efri og neðri kjálka getur þurft að breyta afstöðu þeirra með skurðaðgerð. Slíkar kjálkatilfærslur eru í höndum lýtalækna og munnskurðlækna og þær eru ekki gerðar fyrr en vexti unglingsins er lokið, þ.e. eftir 15-16 ára aldur hjá stúlkum og 17-18 ára aldur hjá piltum. Ef til slíkra kjálkaaðgerða kemur þarf enn að setja spengur á allar tennur, jafnvel þó að það hafi verið gert tvisvar áður.

 

Samvinna

 

Eins og hér hefur verið rakið einkennist tannréttingin því miður af því að meðferðartíminn getur orðið mjög langur. Þess vegna er mikilvægt að börn og foreldrar taki á þolinmæðinni og vinni samviskusamlega að settu marki, en árangurinn verður oft undraverður ef góð samvinna næst. Hlutverk foreldra og barna í þessu samvinnuverkefni er m.a. að nota laus hjálpartæki svo sem teygjur og beisli samkvæmt fyrirmælum tannlæknisins, hirða tennurnar vel og forða spöngunum frá hnjaski af ógætilegu mataræði.

 

Í þessum stutta pistli hef ég reynt að lýsa því hvernig tannréttingar koma almennt að gagni. Hvert barn er þó sérstakt og á einhvern hátt ólíkt öllum öðrum. Foreldrar eru því hvattir til að spyrja frekar til þess að fá svör um það hvaða úrræði geti átt við hverju sinni.

 

www.breidbros.is