Skynjun sársauka er mjög einstaklingsbundin og ekki er hægt að gefa nákvæmar ráðleggingar hvaða aðgerðir valdi það miklum óþægindum að þörf sé á verkjalyfjum. Við höfum tekið það ráð að búa alla undir sársauka eftir að föst tæki eru sett upp. Einnig virðist uppsetning hringja vegna beislisnotkunar valda óþægindum.
Þó er það þannig að margir sjúklingar okkar koma í fyrstu eftirlitsheimsóknina mánuði síðar og segja að þetta hafi nú ekki verið svo slæmt. Einnig eru dæmi um einstaklinga sem aldrei virðast sætta sig við tækin og eru mjög viðkvæmir í eftirlitstímum og jafnvel gráta undan minnsta áreiti. Ástæðan fyrir þessum mismun er ekki kunn. Við virðumst hafa mismunandi sársaukaþröskuld. Einnig virðast einstaklingar sem eru “viðkvæmir” almennt eiga erfiðara með að þola sársaukaáreitið. Í flestum tilvikum er nægjanlegt fyrir tannréttingasjúklinga að nota veik verkjalyf eins og Magnyl eða paracetamol (Panodil eða Paratabs) og höfum við mælt með ofangreindum lyfjum.
Í nýlegum rannsóknum hefur komið fram að lyf sem inniheldur ibuprofen (Ibufen, Ibumetin, Nurofen) er miklu öflugra í að deyfa tannréttingarsársauka og því mælum við nú með því að sjúklingar okkar noti lyf sem innihalda ibuprofen frekar en Magnyl eða paracetamol. Hægt er að fá 20 stk af 200 mg töflum í lausasölu án lyfseðils. Skammtastærð fyrir börn samkvæmt sérlyfjaskrá er 20mg/kg líkamsþunga á dag, gefið í 3-4 jöfnum skömmtum. Ef börn vega minna en 30 kg, skal ekki gefa meira en 500mg á dag.
ATH: Á lyfjaglasi stendur að ekki eigi að gefa börnum yngri en 12 ára lyfið. Ef skammtastærðir miðað við þyngd eru virtar þá er í lagi að gefa börnum lyfið.
Dæmi:
- Ef barnið vegur 30 kg- 20×30=600 mg eða þrjár 200 mg töflur á sólarhr.
- Ef barnið vegur 40 kg- 20×40=800 mg eða fjórar 200mg töflur á sólarhr.
- Ef barnið vegur 50 kg- 20×50=1000 mg eða fimm 200 mg töflur á sólarhr.
- Ef barnið vegur 60 kg- 20x 60=1200 mg eða sex 200 mg töflur á sólarhr.
Takið eftir að þetta eru hámarksskammtar. Ykkar barn þarf ef til vill ekki svona mikið. Þar sem hætta á aukaverkunum eykst með skammtastærðum skulið þið reyna að komast af með sem minnst. Forðist að taka lyfið á fastandi maga og drekkið glas af vatni með. Ef barnið tekur einhver önnur lyf þá skal ráðfæra sig við lækni barnsins áður en lyfið er tekið.
Við ráðleggjum þeim sjúklingum sem kvíða fyrir heimsóknum til okkar vegna sársauka að: Taka eina 200 mg töflu 1 klukkustund fyrir heimsókn, og síðan eftir þörfum eftir heimsóknina.
AUKAVERKANIR-FRÁBENDINGAR OG MILLIVERKANIR:
Einstaka sjúklingar geta fengið ofnæmisviðbrögð af lyfinu. Þeir sjúklingar sem hafa orðið fyrir slíkum viðbrögðum af Magnyl eða paracetamolum skyldu forðast lyfið. Meltingaróþægindi geta fylgt lyfinu.
Astmi getur versnað af lyfinu. Einnig er dæmi um svima og höfuðverk.
Lyfið er ekki ætlað vanfærum konum. Lyfið getur aukið virkni annarra lyfja svo sem blóðþynningalyfja og flogaveikilyfja.